Tuesday, June 27, 2006

Gjafahugmyndir

Án þess að vilja ofbjóða neinum með væmni eða tilfinningasukki er rétt að taka fram að það sem skiptir okkur mestu máli er að okkar ástkæru vinir og ættingjar sjái sér fært að mæta og eiga með okkur gæðastundir. Gjafir eru því aukaatriði og í raun óþarfar. Hins vegar erum við nógu miklir mannfræðingar til að átta okkur á menningarlegu mikilvægi gjafahefða á tímamótum og viljum vitaskuld ekki koma menningarlegum festum í ójafnvægi.

Áður en lengra er haldið verður þó að koma fram að skrautmunir hvers konar eru með öllu afþakkaðir.

Okkur datt hins vegar í hug að óska eftir gjafabréfum hjá:

Flugleiðum
IKEA
Húsasmiðjunni
Heimilistækjum

Einnig erum við gefin fyrir hljómlist og þætti gaman að fá hana í einhverju formi (geisladiskar, vínilplötur, frumsamdar aríur o.s.frv.)



Einhverra hluta vegna eigum við aldrei nóg af myndarömmum (tómum). Eina skilyrðið er að hægt sé að hengja þá á vegg.






Svo viljum við benda á að okkur þykir ekki leiðinlegt að skoða blöð og tímarit til að auðga andann (athugið að myndirnar hér eru valdar af handahófi). Treystum á innsæi velviljaðra við valið - þess má geta að við erum sem stendur ekki áskrifendur að neinu.




Og að lokum: allt sem gestirnir okkar búa til sjálfir er ómetanlegt.





En enn og aftur - aðalatriðið er að mæta og halda uppi stemmningunni... ;)

Nánar um gistimöguleika

Af því að okkur langar að gera sem mest úr samverunni við fólkið sem við hittum allt of sjaldan - hvað þá allt í einu, þá viljum við gjarnan fá sem flesta til að gista.

Fjórir möguleikar koma til greina (þó að við höfum álpast til að geta aðeins tveggja á boðskortinu):

1. Tjald.
Við Logaland (eylítið til hliðar, hægra megin og bak við ef staðið er fyrir framan húsið) er slétt og fín flöt sem staðarhaldari kynnti fyrir okkur sem ,,tjaldstæðið". Tjaldbúar hafa aðgang að aðstöðunni í félagsheimilinu, en rétt er að taka fram að þar eru engar sturtur. Fosshótel Reykholt er þó innan seilingar, svo er sundlaug á Varmalandi og eflaust kemur eitthvað fleira til greina fyrir þá sem ekki treysta sér í lækinn...

2. Svefnpokapláss
Á Fosshóteli Reykholti er hægt að fá að gista í svefnpokaplássi (nokkrir saman í sal) á 1.000.- á mann. Morgunmatur er innifalinn.

3. Einstaklingsherbergi
Á Fosshóteli Reykholti er hægt að fá gistingu í eins manns herbergi með baði á 4.000.- á mann. Morgunmatur er innifalinn.

4. Tveggja manna herbergi
Á Fosshóteli Reykholti er hægt að fá gistingu í tveggja manna herbergi með baði á 5.000.- á mann. Morgunmatur er innifalinn.

Þeir sem eru með börn geta látið bæta inn aukarúmi /-rúmum.

Þessi verð sem hér eru tilgreind eru sérstök tilboðsverð sem Fosshótelkeðjan var svo væn að bjóða okkur. Við verðum hins vegar að láta vita fyrir 1. júlí n.k. hve margir af gestum okkar þiggja gistingu af þessu tagi svo að ekki sé haldið frá herbergjum sem ella væru aðgengileg venjulegum hótelgestum.

Ef einhver vill skoða Fosshótel Reykholt nánar: http://www.fosshotel.is/is/hotel/fosshotel_reykholt.html

Boðskortið

Boðskort
Þér / ykkur er boðið í brúðkaup okkar að Logalandi í Borgarfirði þann 26. ágúst 2006. Athöfnin fer fram kl. 15.00 og efnt verður til veisluhalda að henni lokinni.

Hugmyndin
... er að skapa óformlega og skemmtilega stemmningu fjarri hversdagsleika malbiks-ins. Við vonumst til að geta látið gefa okkur saman undir berum himni og að veislan geti að sem mestu leyti farið fram utan dyra (með þessum klassíska fyrirvara um hagstæð veðurskilyrði). Gönguskór og gúmmítúttur eru velkomnar en pinnahælar og lakkskór gætu reynst gestum okkar fjötur um fót.

Gisting
Okkur þætti gaman ef sem flestir myndu sjá sér fært að eyða brúðkaupsnóttinni með okkur. Að Logalandi eru ókeypis tjaldstæði fyrir brúðkaupsgesti.

Á Reykholti (í 5 km fjarlægð) standa gestum til boða hótelherbergi með baði og morgunverði á kr. 5.000,- (pr herbergi).

Rúta
Þeir sem áhuga hafa geta fengið far á staðinn (frá Reykjavík) og / eða aftur til baka um kvöldið með rútu.

Börn
... eru boðin hjartanlega velkomin. Fagfólk sér um afþreyingu. Foreldrar athugið að hafa meðferðis klæðnað fyrir útiveru.

Logaland
Logaland er félagsheimili í Borgarfirði. Google finnur 2.870 vefsíður þar sem þessu landskunna sveitaballssetri er hampað. Ef þú hefur ekki nú þegar komið að Logalandi er ekki seinna vænna...

Kort

Staðfesting / afboðun
Vinsamlega látið okkur vita fyrir 1. júlí næstkomandi hvort þið þiggið boðið. Takið fram hvort þið viljið nýta ykkur gistimöguleikana eða rútuferðina. Einnig væri gott að fá að vita hvort börn verða á ykkar vegum, hve mörg og á hvaða aldri.

Þórður Björn Sigurðsson
Helga Dís Sigurðardóttir

Netföng:
thordur@btnet.is
hds@btnet.is

Einnig má hafa samband við siðakonu (veislustjóra), Ingveldi Láru Þórðardóttur, á netfangið ingveldur.thordardottir@shs.is